Infinite Next í Nýlistasafninu í Breiðholti

Nýlistasafnið býður ykkur hjartanlega velkomin á sýninguna Infinite Next, í Nýló í Völvufelli 13 – 21, Breiðholti.

 

Opnunartímar safnsins í Breiðholti eru: þri – fös milli kl. 12 – 17 / lau – sun milli kl. 13 – 17

Sýningin stendur til 19. júní

Titill sýningarinnar útleggst á íslensku sem hið óendanlega framundan og er samsýning Önnu Líndal, Amy Howden-Chapman, Bjarka Bragasonar, Bryndísar Snæbjörnsdóttur & Mark Wilson, Hildigunnar Birgisdóttur og Pilvi Takala.


Hið óendanlega er án takmarka, það er endalaust rými, stærð eða samhengi og ógerlegt er að mæla eða ná yfirsýn yfir það. Verkin á sýningunni kljást á ólíka máta við kerfi sem öll samfélög glíma við; hagkerfi síð-kapítalismans, hnignun vistkerfa, tilraunir mannsins til þess að hafa áhrif á virkni þeirra, þekkingarframleiðslu, söfnun upplýsinga og áhrifa mannsins í umhverfinu.



Frá því að landbúnaður hófst og með iðnbyltingunni hefur maðurinn orðið að jarðfræðilegu afli, áhrif menningarinnar á jörðina tóku að marka dýpri spor og valda breytingu á náttúrulegum ferlum. Í dag birtast áhrifin í loftslagsbreytingum, sem þó er illsýnilegt fyrirbæri í heild sinni, heldur birtist það brotakennt í öllum hlutum: sem ójafnvægi í lífríki, hitabylgjur og rigning, sem breyting á öllum aðstæðum og framtíðarhorfum mannkyns. Nýlega í veraldarsögunni hefur menningunni tekist að framleiða afurðir sem halda áfram að hafa áhrif tugþúsundum ára eftir að framleiðsla þeirra eða notkun átti sér stað. Þannig munu leifar atómsprengja dreifast um langa framtíð og jöklar bráðna árþúsundum eftir að slökkt hefur verið á öllum verksmiðjum heimsins.

nylo2


Pilvi Takala, The Real Snow White 2009

Infinite Next hófst sem samstarfsverkefni Önnu Líndal og Bjarka Bragasonar árið 2014. Rannsóknarverkefnið fólst í að skoða loftslagsbreytingar frá sögulegu sjónarhorni, velta fyrir sér menningarlegri og pólitískri sögu og framtíð fyrirbærisins í gegnum myndlist og listrannsóknir. Vorið 2015 fjármagnaði Norræna Menningargáttin, Kulturkontakt Nord, rannsóknarleiðangur og sýningu þeirra á Grænlandi. Þau dvöldu í bæjarlistasafni Ilulissat á vesturströnd landsins um mánaðarskeið og settu upp sýningu þar sem þau unnu með safneignina og samhengi hennar, grænlenska jökla og bráðnun þeirra.

Anna og Bjarki voru í samstarfi við hóp vísindamanna sem stóðu að loftslagsráðstefnunni IlulissatClimate Days, þar sem saman komu hundruð alþjóðlegra vísindamanna og fulltrúar stofnana sem fjalla um loftslag, m.a. frá Bandarísku Geimferðastofnuninni og fjölmörgum háskólum. Þau héldu erindi á opnunarathöfn ráðstefnunnar og notuðu eigin verk til að staðsetja viðfangsefni ráðstefnunnar í pólitískum farvegi, verk sem fjalla um mælingu umhverfisins og birtingarmyndir pólitískra kerfa í umhverfinu, svo sem í olíuleit. Í kjölfarið tóku þau þátt í rannsóknarleiðangri SVALI (Stability and Variations of Arctic Land Ice) Nordic Center for Excellence á Grænlandsjökul, þar sem þau unnu við hlið doktorsnema í jöklafræðum við mælingar á Grænlandsjökli.

Eftir dvölina á Grænlandi ákváðu Anna og Bjarki að bjóða fleiri listamönnum að taka þátt í verkefninu með samsýningu í Nýlistasafninu. Í verkum þeirra á sýningunni er tekist á við sögur af hlutum, stöðum eða atburðum sem á einn og annan hátt tengjast þeim kerfum sem halda eða reyna að halda utan um, stjórna eða breyta umhverfinu og skilningi okkar á því.

Sjá viðburðinn hér á fésbókinni

Opnunartímar

Nýlistasafnið í Völvufelli, Breiðholti

Opið þriðjudaga til föstudaga frá kl. 12 – 17
laugardaga – sunnudaga frá kl. 13 – 17

Núllið, Bankastræti 0 opnar aftur vorið 2016

Aðgangur er ókeypis.

www.nylo.is

Opening hours

The Living Art Museum in Völvufell, Breiðholt

Open Tuesday – Friday from 12 – 17
Saturday – Sunday 13 – 17

Núllið, Bankastræti 0 will open again this spring

Admission is free.

www.nylo.is

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This