Hliðar saman hliðar

18.12. 2018

Ingólfur Arnarson er löngu þekktur á meðal áhugafólks um myndlist fyrir verk sín, bæði hér á landi og erlendis. Í því sambandi skiptir miklu máli langtíma sýning á verkum hans á slóðum Donads Judd í Marfa, Texas. Á yfirstandandi sýningu í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur er fjöldi verka Ingólfs til sýnis um þessar mundir.

Ferill Ingólfs nær til upphafs níunda áratugar síðustu aldar og hefur hann sýnt oft og víða við góðan orðstýr. Í því sambandi ryfjast upp fyrir mér ein eftirminnilegasta sýning hans frá fyrri árum, en hún var haldin í Nýlistasafninu við Vatnsstíg árið 1988. Þar sýndi Ingólfur lágmyndir úr gipsi, en það er díónísiska sýning sem ég hef séð um dagana og bergmálar fegurð hennar enn í höfði mínu eftir öll þessi ár m.a. vegna þess að hann málaði hluta eins gipsverksins með rauðvíni sem léði verkinu fölbleikt yfirbragð. Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ég hef gengið ölvuð útaf sýningu án þess að hafa bragðað dropa af víni. Þarna sýndi hann grófgerða steinsteypuhellu sem borin var þunnu gipslagi og má telja það verk upphafið að þeirri list sem hann hefur iðkað síðan.

Ingólfur hefur sýnt verk sín á fjölda sýninga það sem af er öldinni. Skemmst er að minnast samsýningar hans og Eggerts Péturssonar í Gallarí Gesti í nóvember árið 2016 en þar sýndu þeir um eitthundrað ljósmyndir. Þetta var þátttökuverk í anda Fluxus og gátu gestir díft höndunum í ljósmyndabunkann og gripið stakar myndir eða bunka af þeim til íhugunar.

Sýningin ber titilinn, Jarðhæð og er í samræmi við það, staðsett á jarðhæð safnsins í félagsskap við grásprengdar súlur, hvíta veggi og stóra glugga sem opna sýn útúr rýminu á götuna; hús og umferð akandi, gangandi og hjólandi vegfarenda og ekki síður sýn inní rýmið utanfrá .

Þó þessi inn- og útsýn sé gamalkunnug af fyrri sýningum safnsins nær hún að veita þessari sýningu óvænta vídd m.a. vegna þess að innsetningunni er þannig háttað að lágmyndirnar flútta við súlurnar og hverfa á bakvið þær og sjást þá bara teikningarnar nema þeir sem skoða verkin stígi til hliðar eins og tekið er til orða á vorum dögum. Þessi núna-sérðu-en-ekki-núna-reynsla gerist hvort sem áhorfandinn er inní salnum eða skoðar verkin utanfrá í gegnum gluggana. Úr þessu verður svolítill hliðar-saman-hliðar-dans sem gerir gestina að þátttakendum í innsetningunni. Þessar einföldu hreyfingar gagnvart staðsetningum verkanna gæða sýninguna og verkin óvæntu lífi, gagnstæðu fremur tilbreytingarlausu yfirborðinu. Sama má segja um teikningarnar – þær sýna enga þekkjanlega hluti en virka þess í stað eins og flóknar hæggengar hugleiðslustundir, mandölur án hringformsins sem heldur öllu saman með hjálp goðborinna vera. –Táknmynd íhugunar hefur verið brotin upp í frumeindir í takt við umferðarasann utan gluggans.

Það sem kemur mest á óvart er fyrirferðarlítið slædsjó við útgöngudyr salarins. Þar bregður meðal annars fyrir ljósmyndum sem Ingólfur sýndi í Gallerí Gesti. Þegar hér er komið hefst annarskonar dans því nú þurfa gestir að staldra við á meðan bæði litríkar og fálitaðar ljósmyndirnar dansa við augu áhorfenda og halda þeim föngunum.

Ljósmyndirnar eru að nokkru andstæða teikninganna og lágmyndanna vegna fjölbreyttra litastemminga en halda afturámóti uppi litríkum dansi við borgarlandslagið utandyra og undirstrika víðtæka þátttöku í allri innsetningunni. Ljósmyndirnar í slædsýningunni sýna á óyggjandi hátt hversu gott auga Ingólfur hefur fyrir smáatriðum daglegs lífs.

Þegar hugað er að litadírð ljósmyndanna hvarflar að undirritaðri hvort hér sé  vísbending um næstu sýningu Ingólfs og hvort litirnir verði virkjaðir af fullum krafti í framtíðinni. Það er ekki útí hött að gera sér það í hugarlund því samspil lita var mjög áberandi í verkum Judds um tíma. Það yrði altént spennadi að sjá liti og fjölbreytt form ljósmyndanna spretta fram í verkum Ingólfs og kannski vekja upp Díónísos og villta lifsgleði sem forðum.

Sýning Ingólfs í Hafnarhúsinu er enn ein sönnun þess hve mikilmikilvægu hlutverki söfn gegna við að staðfesta tilvist og erindi listafólks umfram það sem sölugallerí gera. – Ekki síst þegar virt söfn kaupa verk listafólks til varðveislu fyrir komandi kynslóðir.

Þó verkin láti lítið yfir sér á yfirborðinu og auðvelt sé að láta sér fátt um finnast og segja að sýningin sé hvorki góð né slæm, litlaus né leiðinleg þá er hér á ferðinni skemmtilegt sjónarspil útsins og innsins, kyrrstöðu, hreyfingar og þátttöku. Þó myndheimur Ingólfs sé á yfirborðinu fyrst og fremst tengdur hugvitinu þá er í þessari sýningu áhugaverð vísun í líkamsvitið.

Ynda Gestsson


Sýningin er opin til 10. Febrúar 2019.

Ljósmyndir: Helga Óskarsdóttir

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This