Ekki bara hljóðverk

12.09. 2018 | Umfjöllun

Nýverið opnuðu Ívar Glói Gunnarsson og Logi Leó Gunnarsson sýninguna Hljóð & Sönnun Súpa Skál (e. Sound & Proof Soup Bowl) í Gallery Port, Laugavegi 23b. Á sýningunni má sjá verk sem unnin eru í ýmsa miðla en eiga sameiginlega snertifleti er varða hljóð, rými og tækni. Verkin á sýningunni samanstanda af skúlptúrum, ljósmyndum, teikningum og hljóð-innsetningum. Á milli þeirra myndast áhugavert samtal sem steypir saman hugarheimum listamannanna tveggja. Blaðamaður artzine kíkti í heimsókn.

Það fyrsta sem blasir við þegar gengið er inn í sýngarrýmið í Gallery Port eru hljóðnemar sem hanga á víð og dreif um veggina. Hljóðnemarnir nema bæði hljóðin sem myndast inni á sýningunni, hljóðin í umferðinni fyrir utan gallerýið og jafnvel hljóðin sem rigningin gefur frá sér þegar hún bankar taktlaus á þakið. Snúrur hljóðnemanna eru tengdar við magnara sem blæs upp hljóðin og verður til þess að tilviljanakenndur hljóðheimur myndast í rýminu. Með þessu er Gallery Port orðið að eins konar hljóðfæri, jafvel skrásetning þess sem gerist í rauntíma í þessu tiltekna rými.


Yfirlitsmynd frá sýningunni.


Vinstri: Exhibition view documentation bypassing the artworks, Inkjet prent, Nicoh GR II Digital ljósmynd með Cross Process Effect.
Hægri: Exhibition view documentation bypassing the artworks, stafræn 35mm filmu. Ljósmyndaprent eftir Ívar Glóa.

Vinstri: Sitting in a chair. Inkjet prent eftir Loga Leó.
Hægri: Exhibition view documentation bypassing the artworks. Stafræn 35mm filmu ljósmyndaprent eftir Ívar Glóa.


Plugged in Microphone (Shure PG58) Eftir Loga Leó.


Yfirlitsmynd frá sýningunni.

„Ég reyni að stilla hljóðið þannig að það sé ekki endilega ljóst hvað er að gerast í rýminu“ segir Logi Leó. „Ég set hljóðnemana upp sjónrænt, svo stilli ég mixerinn út frá staðsetningu þeirra og út frá rýminu. Vegna endurkasts get ég ekki hækkað of mikið en ég vil það ekki endilega. Hljóðnemarnir eru allir af mismunandi gerð og hafa allir sinn hljóm. Ef þeir væru fleiri eða af öðrum gerðum væri hljóðið öðruvísi.“

Við hlið hljóðnemanna á veggjunum hangir ljósmyndasería. Myndirnar eru allar teknar á filmuvél og sýna hluta úr sýningarrýmum víðsvegar um heiminn, en án listaverka. Gólfin í þessum rýmum eru flotuð, veggirnir hvítir og rýmin upplýst af flúrljósum. Myndirnar sýna staðlað og hlutlaust form hins dæmigerða sýningarýmis, sem virðist nokkuð uggvekjandi þegar verkin sjálf eru ekki til staðar. „Það er einhvers konar alheimsskilningur á því hvernig kjöraðstæður á sviðsetningu listaverka eiga að vera,“ segir Ívar Glói – en ætlun hans var að fanga stemninguna sem myndast þegar listaverkin innan rýmisins eru ekki sjáanleg.

Ein ljósmyndanna sker sig úr seríunni á veggnum, en hún sýnir hvar hljóðnemi hvílir á brúnum stól í hvítu rými. Myndin vitnar í nærveru manneskju eða líkama sem er á sama tíma ekki til staðar í myndefninu sjálfu. Á öðrum vegg eru tvær tölvugerðar teikningar af bylgjukenndum línum sem endurtaka sig, lag ofan á lag. Teikningarnar minna óhjákvæmilega á hljóð eða tónlist og eiga vissulega samhljóm með öðrum verkum innan sýningarrýmisins. „Þetta byrjar sem ein grunnteikning sem ég margfalda þar til ég hef afmáð þá upprunalegu,“ upplýsir Logi Leó. „Þannig hugsa ég líka um hljóðið sem berst inn í hljóðnemana: það hleðst lag ofan á lag og úr því verður hálfgerður grautur. Mörkin afmást þar til það er ekki víst hver upprunalega- né endanlega virknin er.

Í miðjum sýningarsalnum standa fjórir skúlptúrar að svipaðri gerð sem eru þó frábrugðnir hvorum öðrum á einn eða annan hátt. Þeir samanstanda af keramík syllum sem festar hafa verið við trommu statíf ætluðum málmgjöllum. Líkt og hljóðnemarnir og sýningarrýmin sem sjást á ljósmyndunum, eru statífin öll af mismunandi gerð og koma víðsvegar að úr heiminum. Keramík syllurnar eru handgerðar og form þeirra er lífrænt. Þær eru litaðar eyðimerkur-rauðum lit og ofan á þeim standa litlar, svartar viftur sem blása kaldri golu inn í sýningarrýmið.

„Þetta eru usb tengdar tölvuviftur sem eru sérstaklega útbúnar fyrir það að vinna við tölvuna á heitum degi. Þær þjóna þeim tilgangi að gera vinnudag mögulegan sama hversu heitt það er, en eru hér teknar úr samhengi“ útskýrir Ívar Glói. „Vifturnar gera það sama og hljóð, þ.e. framkalla bylgjur í rými á einn eða annan hátt – þótt það komi að vísu hljóð frá þeim líka. Skúlptúrarnir eru í raun eins konar rýmislegt nótnakerfi og syllurnar ákvarða hvar vifturnar eru staðsettar. Þar að auki vitna titlar skúlptúranna bæði í tónlist og skrifstofurými.“

Þegar gestir ganga inn í sýninguna eru þeir umsvifalaust orðnir partur af rýminu. Hljóðin sem þeir gefa frá sér magnast upp í hljóðnemunum og föt jafnt sem hár bærast í golunni sem vifturnar gefa frá sér. Þeir standa og horfa á sjónræn listaverk sem fjalla að mörgu leyti um það sem þeir eru að verða fyrir áhrifum af á líðandi stundu, með því að standa inni í sýningarrýminu eða með því einu að vera til.

Sólveig Eir Stewart


Sýningin mun standa opin til 13. september í Gallery Port. 

Ljósmyndir: birtar með leyfi listamannanna.

Frekari upplýsingar: vefsíða Ívars Glóa: www.ivargloi.infovefsíða Loga Leó: www.logileo.info

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This