Gjörningurinn „En við eigum svo margt sameiginlegt“ sýndur í þvottahúsi í Laugardalnum

Gjörningurinn „En við eigum svo margt sameiginlegt“ sýndur í þvottahúsi í Laugardalnum

Gjörningurinn „En við eigum svo margt sameiginlegt“ sýndur í þvottahúsi í Laugardalnum

Bára Bjarnadóttir og Vala Jónsdóttir eru tvær ungar listakonur sem unnið hafa saman að gjörningaverkinu „En við eigum svo margt sameiginlegt“ sem sýnt var í þrígang í þvottahúsi í Laugardalnum í Janúar. Í verkinu styðjast listakonurnar við ýmsa miðla t.d. myndskeið, hljóð, ljós, skúlptúr og teikningu sem þær þræða svo saman með listrænni frásögn.

Samstarf Völu og Báru hófst á listahátíðinni LungA á Seyðisfirði. Þar héldu þær sýningu þar sem kveikjurnar að En við eigum svo margt sameiginlegt fóru fyrst að skjóta rótum.

„Ég held í alvöru að Vala hafi sagt að sig hafi alltaf langað til að halda listasýningu í þvottahúsi“ segir Bára, aðspurð um staðsetningu sýningarinnar, en listakonurnar hafa út frá eigin sögn haft mikinn áhuga á bæði óhefðbundnum og tímabundnum sýningarstöðum.

„Persónulega hef ég mikinn áhuga á heimilislegum stöðum“ bætir Vala við. „Ég finn t.d. sömu galdra í læk og svo stað sem á að reynast ótrúlega hversdagslegur. Sýningin er eins konar saga tilkomu og falls einhvers konar hlutar eða veru, sprottið úr sameiginlegum áhuga okkar á hlutbundinni verufræði. Hún snýst um afleiðingar þess að pota í náttúrlegan hlut með fingrinum eða að fjarlægja skel úr fjöru og setja í rassvasann– að búa til drama úr því að raska náttúru eða ónáttúru.“

„Í gerð verksins pældum við mikið í því hvernig fólk virðist skipta hlutum í náttúrlega og ónáttúrlega hluti. Fólk virðist stundum ekki gera sér grein fyrir því að hlutir, eins og t.d. plast, hafi lífshring“ segir Bára. „Þegar við kaupum okkur lífrænan mat út í búð er á sama tíma fullt af öðrum efnum í honum. Það er ekki allt eins svart og hvítt og við viljum oft halda. Þess vegna fannst okkur áhugavert að blanda saman náttúru og ónáttúru; að vera út í náttúrunni, finna plast eða ryðgaðan hlut sem blandast saman í annað líf. Ætli þetta verkefni hafi ekki verið okkar leið til að binda þessa hluti saman í sögulegu formi sem fjallar samt um eitthvað miklu stærra. Ferlið hefur verið rosalega flókið, stútfullt af veseni og stórum pælingum um lífið, náttúruna og framtíðina.“

Þvottahúsið sem listakonurnar sýndu í var í kjallara í húsi ömmu og afa Völu. Áður en gjörningurinn hófst var gestum boðið upp á gin og tónik sem varð sjálfslýsandi undir fjólubláum UV ljósum sem staðsett voru víðsvegar í dimmu rýminu. Við hlið þvottavélarinnar var lítill skjár sem spilaði myndskeið af rennandi læk. Lækjarniðurinn sem kom frá skjánum hljómaði um litla þvottahúsið er gestir sötruðu á drykkjum sínum.

Eftir fordrykkinn gengu listakonur inn í rýmið og undirstrikuðu byrjun verksins með því að lýsa UV ljósi að áður ósýnilegum texta á vegg. Á veggnum stóð: „En við eigum svo margt sameiginlegt: Kafli 1“ og hófst kaflinn á öðru myndskeiði á flatskjá innan í þvottahúsinu miðju. Myndskeiðið sýndi samruna tveggja hluta, plaststykkis og ryðgaðrar járnstangar, við lagið Collide með Howie Day.

 Í öðrum kafla verksins, sem undirstrikaður var á sama hátt og hinn fyrri, kviknaði á rauðu ljósi í framvasa hettupeysu sem hékk á þvottasnúru. Á sama tíma heyrðist lítil rödd óma um rýmið. Röddin varð að eins konar sögumanni sem velti fyrir sér ýmsum staðreyndum og tengingum er listakonurnar beindu orku að nærliggjandi hlutum í rýminu.

Í komandi köflum var með fjölbreytilegum hætti varpað ljósi á forvitnilegar tengingar milli hins stóra og smáa, náttúrulegra og ónáttúrulega, tilfinninga og staðreynda. Í lok gjörningsins hafði rýmið orðið fyrir magnþrungnum umskiptum – við mikinn fögnuð áhorfenda.

Vala og Bára segja gjörninginn að nokkru leyti vera undir áhrifum bíómynda og dægurmenningar, þar sem popp- og kvikmyndatónlist skjóta upp kollinum margsinnis í gegnum sýninguna. Listakonurnar leika sér að hugmyndinni um farandsgjörning, þar sem þær ættu möguleikann á því að ferðast þvottahúsanna á milli og setja upp sýningar af þessu tagi. Þær stöllur hvetja því lesendur eindregið til þess að hafa samband við þær ef þá dreymir sama draum.

Sólveig Eir Stewart


Ljósmyndir: með leyfi listamannanna.

Díana að eilífu: Prinsessa, goðsögn, fórnarlamb

Díana að eilífu: Prinsessa, goðsögn, fórnarlamb

Díana að eilífu: Prinsessa, goðsögn, fórnarlamb

Nýverið opnaði sýning í tilefni þess að tuttugu ár eru liðin frá dauða Díönu prinsessu af Wales og er titill sýningarinnar, Díana, að eilífu eða Diana, Forever. Sýningin er haldin annarsvegar í Gallerí Port að Laugavegi 23b og hinsvegar í Ekkisens sem er staðsett að Bergstaðastræti 25b. Blaðamaður artzine hitti sýningarstjórana og listamennina Auði Lóu Guðnadóttur og Starkað Sigurðarson og spurði þau um um sýninguna.

Starkaður Sigurðarson, Andrea Arnarsdóttir og Auður Lóa Guðnadóttir

Fjórtán listamenn á öllum aldri taka þátt í sýningunni og varpa, með fjölbreyttum listaverkum, ljósi á samband sitt við viðfangsefnið. Hugmyndin kviknaði þegar Auður Lóa var að leita að myndefni af rómversku gyðjunni, Díönu, að baða sig. „Sagan segir að veiðimaður hafi komið að Díönu berskjaldaðri að baða sig og að hún hafi breytt honum í hjört svo veiðihundar hans snerust gegn honum og drápu hann. Þegar ég var að leita að tilvísunum í eldra myndefni af þessu á Google fann ég fullt af flottum olíumálverkum, en sirka fimmta hver mynd var ljósmynd af Díönu prinsessu að sóla sig á snekkju, í túrkíslituðum 90’s sundbol“.

Við frekari leit fann Auður dýpri tengingu á milli gyðjunnar Díönu og prinsessunnar Díönu. Því ákvað hún að samtvinna goðsögnina við líf Díönu prinsessu, sem virðist að mörgu leiti hafa verið „nútímalegur harmleikur“, sviðsettur af fjölmiðlum.

Auður Lóa Guðnadóttir, Gallerí Port.

Auður Lóa Guðnadóttir, Gallerí Port.

Una Sigtryggsdóttir og Svein Steinar Benediktsson, Gallerí Port.

Andrea Arnarsdóttir, Ekkisens.

Starkaður Sigurðarson, Ekkisens.

Starkaður bætir við að það sem almenningur veit um Díönu prinsessu kemur að mestu leiti úr myndefni frá slúðurblöðum og fjölmiðlum. „Við erum strax komin með fyrsta lagið sem aðskilur okkur frá henni. Verkin fjalla um hugmyndir okkar um Díönu frekar er manneskjuna sjálfa: mynd af myndgerðri ímynd af óraunverulegri manneskju. Díana verður þannig nostalgísk, jafnvel goðsagnarkennd persóna. Hún á sér margar hliðar og þess vegna er hún áhugavert viðfangsefni í myndlist.“

Verkin sýna ýmsar ólíkar birtingarmyndir Díönu prinsessu. „Sýningin er svolítið ‘Díana og ég’. Nálgun hvers og eins listamans verður mjög persónuleg,“ segir Auður. „Alls voru þrjú verk til áður en ferlið hófst en öll hin verkin voru sérstaklega gerð fyrir sýninguna.“

Gjörningakvöld var haldið í Mengi í tengslum við sýninguna þar sem tveir gjörningar voru fluttir. Annar þeirra, Royality vs. Reality, fluttur af Rúnari Erni Marínóssyni og Berglindi Ernu Tryggvadóttur, tók á sig form listræns fyrirlesturs á meðan seinni gjörningurinn, Díana undir rós, saminn af Guðrúnu Heiði Ísaksdóttur og Maríu Worms, var eilítið leikrænni.

Frá gjörningakvöldi í Mengi

Rúnar Örn Marínósson og Berglind Erna Tryggvadóttir voru með listrænan fyrirlestur.

Berglind Erna Tryggvadóttir

Rúnar Örn Marínósson og Berglind Erna Tryggvadóttir.

Seinni gjörningurinn, fluttur af Maríu Worms, Auði Lóu og Starkaði Sigurðarsyni, var eilítið leikrænni.

Auður Lóa.

Auður Lóa og María Worms.

Auður Lóa og María Worms.

Verkin á sýningunni eru fjölbreytt og einkennast helst af málverkum, teikningum og skúlptúrum, auk hreyfi- og ljósverka. Hvert verk virðist spegla líf Díönu á sinn hátt. Verkin fjalla meðal annars um útlit hennar; ástina, kynið og goðsögnina; hlutgervinguna, ímyndina og fórnarlambið.

„Það er dálítil tvíræðni í öllum verkunum. Tvíræðnin er líka það sem gerir Díönu áhugaverða.“ segir Starkaður. „Það veit náttúrlega enginn okkar hvernig Díana var í raun og veru,“ bætir Auður við. „Því væri hægt að segja að allar framsetningarnar séu í raun ósannar. En svo er sannleikurinn náttúrlega bara það sem við trúum að sé satt. Ef ég tryði því að Díana væri lauslát væri það sannleikur fyrir mér, eins ef hún væri dýrlingur. Díana var ein þeirra fyrstu sem var elt uppi af fjölmiðlum og slúðurblöðum. Hún náði reyndar að nota það sem tól seinna meir og olli þannig miklum viðhorfsbreytingum í bresku samfélagi og heiminum öllum. Ég held að Díana hafi undir lokin verið manneskja sem vildi bara vera elskuð. Hún fékk ekki ástina eða lífið sem hún þráði þegar hún giftist Karli bretaprins, nítján ára, en ástina fékk hún frá almúganum sem virtist dýrka hana þá og virðist enn gera það í dag.“

Þáttakendur í verkefninu eru: Andrea Arnarsdóttir, Auður Lóa Guðnadóttir, Berglind Erna Tryggvadóttir, Guðrún Heiður Ísaksdóttir, Helga Skúladóttir Thoroddsen, Magnús Gestsson, María Worms, Rúnar Örn Marinósson, Sigrún Hlín Sigurðardóttir, Snorri Ásmundsson, Starkaður Sigurðarson, Steingrímur Eyfjörð, Sveinn Steinar Benediktsson, Una Sigtryggsdóttir.

Lokahóf sýningarinnar verður 25. Nóvember í Ekkisens. Við hvetjum fólk eindregið til að nýta tækifærið og skella sér á hina margbrotnu og litríku sýningu, Díana að eilífu.

Sólveig Eir Stewart


Ljósmyndir af verkum: Starkaður Sigurðarson (Ekkisens) Helga Óskarsdóttir (Gallerí Port)
Frá gjörningakvöldi í Mengi: Laufey Elíasdóttir

A – DASH: Eitthvað-sem-tengir-hluti-saman

A – DASH: Eitthvað-sem-tengir-hluti-saman

A – DASH: Eitthvað-sem-tengir-hluti-saman

Eva Ísleifsdóttir listamaður er búsett í Aþenu á Grikklandi. Hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2008 og með MA gráðu frá Edinburgh College of Art árið 2012. Árið 2016, eftir vinnustofudvöl í Aþenu, opnaði Eva ásamt fjórum samþenkjandi listamönnum listamannarekið rými og vinnustofur sem bera nafnið A – DASH. Eva tók brosandi á móti blaðamanni artzine á kaffihúsi Kjarvalsstaða og svaraði nokkrum spurningum um starfsemina þar.  

Hvað getur þú sagt mér um A – DASH?

A – DASH samanstendur af sýningarrými og listamannavinnustofum í hverfi sem heitir Exarchia, einnig kallað anarkistahverfið og er í Aþenu. Húsið sjálft er byggt árið 1890 í neo-klassískum byggingarstíl. Þetta er mjög gamalt hús, friðað hús. Í byrjun árs 2015 gafst mér kostur á tveggja mánaða vinnustofudvöl í Aþenu. Við dvölina varð ég hrifin af borginni og sá þarna fyrir mér möguleika á að opna sýningarrými og vera með studio. Mig vantaði nefnilega studio. Stelpan sem var með mér í residensíunni, Noemi, var með sömu pælingar svo við ákváðum að plana þetta saman. Við byrjuðum að skoða húsnæði og senda út fyrirspurnir, en þá hafði hún Zoe, sem er núna ein af okkur fjórum, samband. Við höfðum kynnst henni í gegnum residensíuna, en hún er listamaður eins og við. Hún sagði við okkur: „Heyriði, ég á þetta hús í Exarchia! Með varann á því það er það rosalega illa farið. Það hefur verið tómt í tíu ár og ekkert hefur verið gert við það“.


A – DASH húsið er í hverfi sem heitir Exarchia, einnig kallað anarkistahverfið. Húsið var byggt árið 1890 í neo-klassískum byggingarstíl og er friðað.

Við fórum og kíktum á húsið og það var allt brotið og bramlað, veggirnir alveg að hrynja og alveg ógeðslegt. Og við bara: „Heyrðu, þetta er málið!“ segir Eva brosandi. Að þessu hlæjum við.

Fullkomið tækifæri?

Já, gjörsamlega fullkomið. Það hentaði rosalega vel fyrir það sem við vorum að velta fyrir okkur. Í þessu ferli töluðum við við aðra listakonu, hana Catrionu Gallagher, um að vera með. Þarna myndaðist listamannahópur okkar fjögurra, en í honum eru Zoe Hatziyannaki, Catriona Gallagher, Noemi Niederhauser og ég.

Listakonurnar sem standa að A – DASH: Eva, Zoe Hatziyannaki, Noemi Niederhauser og Catriona Gallagher.
Ljósmynd: Angelos Giotopoulos

Við ákváðum að fara á fullt í að gera við húsið þannig að það yrði studio- og sýningarhæft. Og þannig varð verkefnið A – DASH að veruleika.

Þarna eru studio en þetta er líka residensía ekki satt?

Já, það er resedensía þarna. Við ákváðum að hafa eitt herbergi í húsinu sem residensíu. Þetta er í rauninni mjög sjálfstætt. Við bjóðum upp á möguleikann á því að sýna í rýminu, eða vera með einhverja eventa. Það geta allir sótt um í þessa residensíu með því að senda bara e-mail. Það eru engir frestir, eða þannig. Þetta geta verið rithöfundar, skáld, myndlistarmenn og svo framvegis.

Vinnuaðstaða fyrir listamenn

Eva segir frá því hvernig listamennirnir fjórir hafi ákveðið að hafa náttúrulega framvindu á málum varðandi rekstur residensíunnar. Þær hafa fram að þessu sjálfar látið orð út ganga til samlanda sinna, enda koma þær hver frá sínu landinu. Með þessu hafa þær fengið hjálp víðsvegar að frá ungum listamönnum sem hafa lagt leiðir sínar til Aþenu. Til að mynda fékk A – DASH til sín lærlinga, Gylfa Freeland Sigurðsson og Geirþrúði Einarsdóttir, sem löggðu þeim lið ásamt Brynjari Helgassyni og Benjamin Cohen.

Svo það er alveg ýmislegt sem fer þarna fram?

Alls konar! Með þessu batteríi langaði okkur í grunninn að búa til eitthvað sem er ekki endilega búið að plana ár fram í tímann, heldur hafa þetta svolítið í flúx.

Einmitt, svona organískt.

Nákvæmlega. Allt húsið er líka í stöðugri umbreytingu. Ef við fáum fjármagn þá gerum við meira við og hlutirnir breytast smátt og smátt. Við skildum t.d. einn upprunalegan vegg eftir óbreyttan. Upphaflega voru veggirnir handmálaðir, svo við ákáðum að skilja sumt eftir upprunalegt þannig að hægt væri að sjá sögu hússins.


„Upphaflega voru veggirnir handmálaðir, svo við ákáðum að skilja sumt eftir upprunalegt þannig að hægt væri að sjá sögu hússins.“

Við erum með hvítt rými niðri í vinnuplássinu, þannig að ef við opnum studióin og annað rými, getum við verið með sýningar sem breiðast um allt húsið. Við erum líka með garð, en núna er hún Catriona að vinna í honum verkið Athina City Gardens ásamt Fanis Kafantaris og fá þau í það plöntur alls staðar að úr borginni.


Athina City Gardens fær plöntur alls staðar að úr borginni.

Er hann eins konar samansafn af plöntum svæðisins?

Já, nákvæmlega. Okkur langar líka á einhverjum tímapunkti að vera með útibíó. Svo væri náttúrulega æðislegt að geta verið með kaffihús þarna, en til þess þarf tilskilið leyfi. Skrifræðið þarna er smá strembið en við erum með frábært spil í hendi sem er hún Zoe. Hún er grísk og hefur séð um megnið af öllu svona dóti.

Svo það er gott að vera með einhvern sem talar góða grísku?

Já, Catriona talar líka grísku, á grískan kærasta. Þannig að þetta er hægt, að læra grískuna!

Hvernig gengur þér?

Ég get pantað eitt rauðvínsglas á barnum og svo ég segi ég bara „já, já, já” og kem mér í vandræði, segir Eva og skellir upp úr.

Hvernig eru sýningarnar sem hafa farið fram þarna? Er einhver tenging á milli þeirra?

Við opnuðum húsið í desember, 2016. Það var alveg tómt og við ákváðum að fagna því að við værum búnar að gera það upp með því að halda bara stórt partý. Húsið gersamlega fylltist af fólki og þetta var yndislegt kvöld. Við vorum með DJ og veigar í boði. Húsið sjálft var í rauninni verkið sem var til sýnis.

Í mars og apríl vorum við svo með sýningu sem hét „I Remember Not Remembering It Very Well“. Þar vorum við með lítið workshop þar sem við buðum fólki að koma og búa til höldur á keramíkbolla sem við höfðum útbúið. Alls voru þetta 100 bollar sem við settum inn í innsetningu sem við smíðuðum og var í aðalsalnum. Við buðum hljómsveit að koma og spila og svo vorum við öll máluð í framan því það var Carnival tími.

Sýningin var í sjálfu sér bæði innsetning og gjörningur. Fólk gat líka komið og keypt keramikbolla eða fengið gefins þá bolla sem það hafði sjálft unnið við. Listaverkið var í rauninni þessi gjörningur.

Með A – DASH verkefninu erum við líka að koma okkar eigin list á framfæri. Við stýrum ekki bara sýningum heldur erum við allar með sýningar og viljum vera sýnilegar. Ein megin ástæðan fyrir því að við settum A-DASH á laggirnar var að okkur vantaði studio og okkur langaði að sýna það sem við vorum að gera.


Myndirnar að ofan eru frá verkefninu „I Remember Not Remembering It Very Well“ þar sem A – DASH hópurinn stóð fyrir workshop þar sem fólki var boðið að koma og búa til höldur á keramíkbolla sem listamennirnir höfðu útbúið.

Hvers kyns sýningar hafa tekið við?

Eftir þessa seinni sýningu var einkasýningin hennar Noemi haldin. Á sýningunni setti hún upp hárgreiðslustofu sem var undir áhrifum frá Kypseli hverfinu sem er í u.þ.b. tuttugu mínútna göngufjarlægð frá Exarchia, þar sem við búum. Hurðirnar í Kypseli eru eins konar flúraðar járngrindur eða grindverk sem eru mjög áhugaverðar í laginu. Á sýningunni tengdi Noemi þessar hurðir við afrískan hárgreiðslustíl, fléttur og vafninga í hári. Hún var með sambærilegt grindverk í sýningarsalnum og fékk hárgreiðslukonur til að flétta sýningargestina svo þeir gengju út sem listaverk – með listaverk í hárinu.

Frá einkasýningu Noemi Niederhauser, en hún setti upp hárgreiðslustofu sem var undir áhrifum frá Kypseli hverfinu. Þar eru hurðirnar eins konar flúraðar járngrindur eða grindverk sem Noemi tengdi við afrískan hárgreiðslustíl.

Þetta hefur verið mjög samfélagslegt verkefni, þar sem sýningargestir taka þátt í verkunum. Fyrir aftan húsnæðið er hæð sem heitir Lykavittos hæð og liggur upp að kirkju. Þaðan er hægt að horfa yfir alla Aþenu. Þar er líka æðislegur veitingastaður sem ég mæli með.

Fólk fór upp í hæðina til að tína plöntur sem seinna meir voru gróðursettar í portinu fyrir Athina Garden City sýninguna. Við erum að safna öllum plöntutegundum á svæðinu til að rækta í garðinum okkar. Þetta var fyrsti kaflinn í þessu ferli. Núna er annar kaflinn á leiðinni, sem verður strúktúrinn inni í portinu, en þriðji kaflinn verður vídeóinnsetning inni í rýminu.


Fólk fór upp í hæðina til að tína plöntur sem seinna meir voru gróðursettar í portinu fyrir Athina Garden City sýninguna

Við höfum verið með breytilega sýningu í gangi sem heitir If it sounds like bacon you’r doing it right. Hún tengist því að einn glugginn á húsinu, niðri í sýningarsalnum, var mjög illa farinn. Það var reyndar búið að negla fyrir hann og setja spónarplötur yfir gatið, en hann var eins og sár á veggnum. Áður en við fluttum inn og á meðan enginn bjó í húsinu, kom fólk inn og náði sér bara í járn, víra og fleira til að selja á markaði og næla sér í pening. Allt innvolsið var farið úr húsinu, meðal annars þessi gluggi. Þannig að við tókum upp á því að búa til nýjan glugga.

Sérstakt víravirki var búið til fyrir þennan glugga og varð hann að sjálfstæðu sýningarrými.

Öll neðri hæðin er nú alsett víravirkjum, bæði til þess að vernda gegn innbroti og sem varanleg innsetning á húsið að neðanverðu. Við bjuggum til sérstakt víravirki fyrir þennan glugga þannig að hann varð að sjálfstæðu sýningarrými, út á við. Við buðum tólf listamönnum að setja upp verk fyrir gluggann, sem varð svo að If it Sounds like Bacon you’re doing it Right.

Þetta eru bannerar sem eru fyrir glugganum og sjást utan frá, þannig að það er alltaf sýning í gangi. Núna er Benjamin Cohen til dæmis með sýningu. Hann smíðaði replicu af víraverkinu úr við. Svo ljósmyndaði hann replicuna og nú er ljósmyndin af henni fyrir aftan víravirkið sjálft. Mjög conceptual. Það hafa verið hér nokkrir íslenskir listamenn. Prent og Vinir, þeir Sigurður Atli og Leifur Ýmir, hafa til dæmis sýnt hér sem og Kristín Rúnars.

Hvað með þína eigin myndlist, einhverjar sýningar nýlega eða í náinni framtíð?

Já sýningin Noway Different / sýningin mín sem opnaði 7 Oktober. Verkið byggir á innsettningu í sýningarrými A – DASH en þar kom ég kom málverkinu “Guernica” eftir Pablo Picasso fyrir. Málverkið stendur ekki eitt og sér heldur tók ég með sýningarsalinn í Museo Nacional Centro de Arte Reina Sofía á Spáni.


Myn af Evu fyrir framan verk sitt. Ljósmynd: Bryony Dunne


Frá sýningu Evu „Noway Different“ sem byggir á innsettningu í sýningarrými A – DASH þar sem málverkinu “Guernica” eftir Pablo Picasso var komið fyrir.

Verkið er tilraun og stúdía til að endurskoða framsetningu og tilurð verka sem sem byggð eru á einum tímapunkti sögunnar. Samhengi verksins verður til þar sem það er, og verkinu hefur verið komið fyrir í Aþenu í Grikklandi. Í rýminu er einnig lifandi tvöföldun eða framlenging á daglegu lífi upprunalega verksins í Reine Sofia. Verkið er í raun mynd af sjálfu sér.

Eva segir einnig frá því hvernig listasenan hefur blómstrað á Grikklandi eftir 2008 hrunið, talar um það sem náttúrlega framvindu. Það eru nánast engir styrkir sem hægt er að sækja um í Grikklandi sjálfu, en listamenn fá styrki annarsstaðar frá eða framfleyta sér á annan hátt. Það er til að mynda mikið af listamannareknum rýmum í Aþenu um þessar mundir, en þau hafa fengið aukna athygli, sérstaklega eftir að Documenta sýningin var haldin þar í ár. 

Að lokum, hvaðan kemur nafnið, A – DASH?

A – DASH kom til þegar við Noemi vorum að brainstorma með nafn og í hvert skipti sem við komum með tillögu, þá settum við bandstrik á milli orðanna. Við sáum að bandstrikið sjálft væri kannski málið, eitthvað sem tengir hluti saman. Svo er líka hægt að segja „a dash of salt”,„a dash of sugar” og svo framvegis.

Eva er einkar hress og skemmtileg. Yfir henni hvílir ferskleiki sem hún segist hafa öðlast á Grikklandi, „þar sem maturinn er næringarmikill og veðurfarið blítt.“ Blaðamaður artzine þakkaði fyrir viðtalið, endurnærð og-vel–tengd-eftir ljúfa stund með Evu á kaffihúsinu á Kjarvalsstöðum.

Sólveig Eir Stewart


Ljósmyndir:  Aðalmynd með grein: Þorgerður Ólafsdóttir. Myndir með grein birtar með leyfi A – DASH.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um A – DASH á vefsíðu þeirra: www.a-dash.space og á vefsíðum listamannanna sem reka það.

www.evaisleifdottir.com
www.noemi-niederhauser.ch
www.catrionagallagher.com
www.zoehatziyannaki.com

Að spinna úr þráðum óreiðunnar

Að spinna úr þráðum óreiðunnar

Að spinna úr þráðum óreiðunnar

Blaðamaður artzine kíkti við á myndlistarsýninguna Ég sagði það áður en þú gast sagt það sem stendur yfir í Gallerí Gróttu um þessar mundir. Það er myndlistarhópurinn I.Y.F.A.C eða International Young Female Artist Club sem sýnir, en hópurinn samanstendur af myndlistarkonunum Höllu Birgisdóttur, Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur, Ragnheiði Maísól Sturludóttur, Sigrúnu Hlín Sigurðardóttur og Steinunni Lilju Emilsdóttur. Blaðamaður settist niður með þeim á Bóksafni Seltjarnarness og ræddi við þær um sýninguna og samstarfið.

Hópurinn varð til um það leyti sem Sigrún Hlín og Ragnheiður Maísól voru nýútskrifaðar með BA gráður í myndlist frá Listaháskóla Íslands. Að þeirra sögn vantaði þær báðar einhvers konar rótfestu eða samastað og fólk sem þær gætu talað við um myndlist og það sem þær væru að hugsa. „Þetta var eins konar lágpunktur fyrir mig, þar sem ég fattaði að það væri enginn að bíða eftir að maður gerði eitthvað eða fara að klappa manni á kollinn. Svona er veruleikinn oft fyrir nýútskrifaða myndlistarmenn,“ segir Sigrún, hreinskilnislega.

Eftir að hafa hist og rætt málin ákváðu þær að stofna Facebook-hóp og bjóða nokkrum velvöldum listakonum í hópinn. Á þann hátt sköpuðu þær vettvang til að varpa fram hugmyndum og eiga samtal við aðra um myndlist. Sýningin sem stendur yfir í Gallerí Gróttu er önnur sýningin sem þær vinna að saman, þótt sýningar séu ekki endilega meginmarkmið I.Y.F.A.C hópsins.

„Í fjöldanum verður til smitandi orka og hópurinn er fyrst og fremst hugsaður sem eins konar stuðningsnet,“ segir Ragnheiður Harpa. „Já, við erum smá eins og AA, nema fyrir listakonur,“ bætir Steinunn Lilja við og skellir upp.
„Það er oftast þannig að ein okkar stingur upp á að sýna og svo vinnum saman að umsókn. Ein er með hugmynd sem hefur verið að gerjast, en önnur setur hana fram. Þegar við sýndum fyrri sýninguna okkar í SÍM salnum voru Ragnheiður Harpa og Steinunn t.d. ekki með verk, en þær tóku á sig hlutverk sýningarstjóra“ segir Ragnheiður Maísól.

„Við erum náttúrulega hópur kvenna og umræðan fer oft þangað. Titill sýningarinnar, Ég sagði það áður en þú gast sagt það, vísar í hið kvenlæga í okkur,“ svarar Ragnheiður Harpa þegar spurt er um innblástur sýningarinnar. „Það er þetta með að afsaka allt áður en maður gerir eitthvað sem er mjög kvenlegur eiginleiki,“ bætir Ragnheiður Maísól við. „Maður er alltaf að afsaka sig fyrirfram. Það er fyndið að standa sig að þessu þegar gestir koma í heimsókn eða þegar maður er að byrja símtal, því þetta er eitthvað sem maður myndi aldrei ætlast af öðrum. Það er eins og við séum alltaf að afsaka tilvist okkar, búast við einhverri gagnrýni og forðast árekstra, en þeir eru einmitt svo skemmtilegir!“

Listakonurnar byrjuðu sýningarferli Ég sagði það áður en þú gast sagt það sýningarinnar á að vinna undir titlinum Augnsaumur. „Það er saumspor sem er hluti af íslenskri útsaumshefð,“ útskýrir Sigrún. „Þá er vefnaðurinn glenntur út með sporunum þannig það opnast stærra gat á milli vefjaþráðanna heldur en á að vera. Þá myndast eins konar auga sem breytir uppbyggingunni án þess þó að slíta eða skera.“

Samkvæmt listakonunum hefur textíllinn oft verið afskrifaður sem dútl eða skraut í stað alvarlegrar myndlistar, eins og svo margt annað sem telst kvenlægt, nema ef listamaðurinn er karlmaður. „Kona má halda sýningu um eitthvað kvenlægt eins og ástina, eða hafa blóm í gjörningnum sínum. Það er ekkert skammarlegt við það,“ segir Steinunn, ákveðin. „Maður hefur alveg lent í smá hnussi þegar talað er um textíl,“ tekur Sigrún undir. „En textíllinn er einmitt einn þráðanna í þessari sýningu. Það eru þræðirnir í óreiðunni, veraldlegu þræðirnir sem við vefum úr og svo þessi arfur kvenna sem hefur gengið í gegnum þráðinn, frá kynslóð til kynslóðar í ýmsum birtingarmyndum.“

Þegar samræður eru komnar út í frjálst spjall tölum við oft um óreiðuna eða byrðina sem fylgir hlutum, bæði bókstaflega en einnig t.d. í tölvupósti manns. Þá fer maður að sortera efnið sitt og finna hvar merkingin liggur. „Þráðapælingin fer úr því að vera smá yfir í stærri mynd. Steinunn er til dæmis með stjörnugeim sem nær yfir risa spektrúm,“ segir Ragnheiður Harpa og horfir áhugasöm til Steinunnar.

„Stjörnurnar eru sem sagt augnskuggi,“ segir Steinunn. „Ég kann ekki að mála mig og hef aldrei gert, en einhvern veginn sit ég uppi með fullt af augnskugga sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina og aldrei hent. Það sem mér finnst gaman akkúrat núna er að fara á vefsíðuna Pinterest og skoða myndir af geimnum og stjörnuþokum. Stundum þegar ég horfi á himininn á ég erfitt með að sjá stjörnurnar og finnst það svekkjandi. Ég ímynda mér þá hvernig það væri ef það væri hinseginn, stjörnurnar væru svartir punktar og himininn ljós, þá væri mun auðveldara fyrir mig að sjá munstrin. Svo ég ákvað að gera það að raunveruleika með efninu sem var alltaf að þvælast fyrir mér, augnskugganum. Ég er nefnilega í því ferli að losa mig við hluti sem ég hef sankað að mér, en á erfitt með að henda. Augnskugginn finnst mér mjög fallegur og magnað efni til að vinna með. Með þessu langaði mig að binda hinn stóra stjörnugeim saman við eitthvað sem telst venjulegt.“

Verk Ragnheiðar Hörpu fjallar einnig um hið smáa og stóra, en það samanstendur af nokkrum sandstöplum sem hún nefnir Galdra. „Í sandinum leynist smækkuð mynd af stærri heim. Með verkinu vildi ég vísa í hina kvenlegu hefð að gera seið og galdra, arf sem gengið hefur niður kynslóðir“ segir Ragnheiður Harpa. Ásamt sandinum eru litlir steinar, kuðungar og smáhlutir sem hún fékk frá ömmu sinni. Þeim hefur hún raðað í myndir sem minna helst á töfrarúnir. Ragnheiður Harpa segir frá því að hún hafi fundið fyrir kynslóðabili sem leiddi til þess að vitneskja af þessu tagi hafi tapast. „Með verkinu vil ég brúa bilið, sækja aftur í það sem hefur hugsanlega tapast.“

Á opnun sýningarinnar var fluttur gjörningur sem gestum var boðið að taka þátt í og vinna saman að því að töfra fram nýjan galdur undir leiðsögn Ragnheiðar Hörpu. Fólk var látið varpa óskum sínum á tiltekinn hlut, stein eða kuðung og koma honum fyrir á ákveðnum stað á stöplinum.

„Mér fannst gjörningurinn tala svolítið um arfinn eða það sem er geymt,“ segir Sigrún. „Þungann og söguna í hlutum sem er tímabundin. Þú gerir verkið ekki aftur án þess að gera það allt aftur.“
Verk Sigrúnar er unnið í textíl og samanstendur af 110 efnisbútum sem innihalda allir handsaumað orðið OK. „Verkið var tilraun til að einblína á handahófskennda jafnt sem tímatengda hugmynd, það að endurtaka sama verkefnið dag eftir dag í ákveðinn tíma,“ segir Sigrún hugsi. „Á hverjum degi saumaði ég þessa tvo stafi í efnisbút af sömu stærð. Það var komið á þann stað þar sem ég fór að hugsa um lögun stafanna, mjúkt O og beitt K,“ segir hún og hlær. „Ég vil meina að það þurfi ekki að bíða eftir því að meistaraverk komi til manns. Það er líka hægt að taka ákvörðun og treysta því að verkið komi til í ferlinu. Reglurnar urðu til eftir því sem ég vann verkið.“ Hver og einn efnisbútur virðist hafa sinn persónuleika, mótaðan af efninu og hvernig OK-ið er saumað. Sumir bútarnir virðast hvísla á meðan aðrir öskra.

Verk Ragnheiðar Maísólar er einnig unnið í textíl og sprottið út frá heilráðum móður hennar. „Ég fór að hugsa um hvernig allt sem maður segir við börnin sín hefur áhrif og hvað það væri sem sæti eftir hjá mér í sambandi við mömmu mína. Við höfum átt svo náið samband og hún hefur alltaf verið mikil fyrirmynd, textílkona og vefari. Mig hafði alltaf langað að vinna með henni,“ segir Ragnheiður. „Einu sinni þegar ég var að fara út úr húsi með taupoka endurómaði heilræði móður minnar í höfðinu á mér: „Það er betra að vera með eina stóra tösku en margar litlar.” Þá byrjaði ég að safna heilráðum og festa þau niður. Þegar ég var að vinna verkið urðu þessi heilræði nánast trúarleg, eins og boðorðin tíu.“ segir Ragnheiður og hlær. „Einu sinni sagði hún við mig „Þú ert ekki frek, þú ert ákveðin”. Þessi setning hafði mikil áhrif á mig sem barn og sýndi mér að það er allt í lagi að vera stelpa og taka pláss. Ég lærði með þessu að vera svolítill gaur og að kýla á hlutina.“

„Mér finnst Halla líka hafa þetta í sér, að kýla á hlutina,“ segir Steinunn. „Hún er ein duglegasta kona sem ég þekki.“ Hinar taka allar undir, en Halla var sú eina sem komst ekki í viðtalið. Verkið hennar samanstendur af hringlaga blýantsteikningum í sérstökum stíl sem hún hefur þróað með tímanum. Verkið ber heitið Betri eru ímyndanir en að tilheyra engum sem vísar í einmanaleikann og hvernig við sem mannfólk tökumst á við hann og lífið sjálft með því að skapa okkar eigin heima með ímyndunum.

Við inngang sýningarinnar er texti á vegg sem við fyrstu sýn virðist fjalla á hefðbundinn hátt um sýninguna, en er í raun kvenlæg afsökunarbeiðni sem hnykkir á og undirstrikar inntak og áherslur sýningarinnar.

Blaðamaður artzine þakkar fyrir spjallið. Við og minnum á að lokahóf sýningarinnar er 7. október og hvetjum alla til að mæta.

Sólveig Eir Stewart

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest