Án upphafs og endis – Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir í Hafnarborg

Án upphafs og endis – Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir í Hafnarborg

Án upphafs og endis – Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir í Hafnarborg

Margoft við sjáum og margoft við sjáum aftur, er titillinn á sýningu Jóhönnu Kristbjargar í Hafnarborg. Þegar gengið er inn á sýninguna er það eins og að stíga yfir landamæri, inn á ókannað svæði þar sem óskilgreind tákn vísa veginn, á kunnuglegu en samt framandi tungumáli. Jóhanna Kristbjörg hefur sýnt verk sín víða á síðustu árum, hér heima m.a. í Listasafni ASÍ árið 2015, en hún er búsett í Belgíu þar sem hún útskrifaðist frá HISK, Higher Institute for Fine Arts, sama ár.

Jóhanna vinnur í marga miðla, en það má segja að grunnurinn að list hennar sé málverkið og tvívíð form, sem einnig eru sett fram sem skúlptúrar og innsetningar. Á sýningunni í Hafnarborg eru einnig tvö myndbandsverk, þar sem fram koma tengsl listamanns við umhverfi og hluti. Jóhanna skrifar líka og á sýningu hennar má sjá og lesa bók með textum og myndum, þar sem textaflaumur myndar líkt og samhliða heim við myndverk hennar.

List Jóhönnu byggir á samsetningu forma og lita sem að ýmsu leiti minnir á liststefnur frá fyrri hluta 20. aldar, kúbisma, súrrealisma og abstraktlist. Málverkin eru tvívíð og formum er dreift um myndflötinn eins og hvert verk gæti verið hluti af stærri heild, sem heldur áfram þar sem striginn endar. Jóhanna tengir málverkin við rýmið með veggmálverkum og dregur form þeirra inn í rýmið með skúlptúrum, útskornum formum af sama toga og þau sem málverkin sýna. Formin minna á púsl í púsluspili, sem eykur á tilfinninguna fyrir tengslum á milli verka. Hún skapar einnig innsetningar í rýminu, eins og þar sem hún staðsetur skúlptúr á bláum grunni sem minnir á stóra öldu. Smáhlutir úr járni og gerviblóm virka eins og glufur á þessari stóru heild og vekja upp spurningar.

Strúktúralismi kom fram í Frakklandi upp úr miðri síðustu öld. Þar kom fram sú hugmynd að menning okkar byggi á ákveðnum strúktúr. Þessar hugmyndir tengdust kenningum í málvísindum. Út frá þeim mátti hugsa sér að myndlist mætti nálgast og lesa eins og nokkurs konar tungumál. Á sama tíma komu fram hugmyndir um „dauða höfundarins“ og afhelgun listaverka. Listaverk áttu ekki lengur að búa yfir ósýnilegum og leyndardómsfullum, helgum kjarna listamannsins, heldur áttu áhorfendur og fræðimenn að greina þætti listaverksins í tengslum við samfélag, menningu og sögu. Strúktúralismi var svolítið eins og lokað kerfi, þar sem ákveðnir þættir voru skilgreindir með því að bera þá saman við aðra þætti innan sömu heildar, og öðluðust þeir merkingu sína út frá því.

Strúktúralismi var afar útbreiddur og hafði mikil áhrif, en í kjölfar hans komu fram póst-strúktúralískar kenningar sem leituðust við að „opna“ þetta lokaða kerfi og skoðuðu sérstaklega hvernig merking verður til og á hverju hún grundvallast.
Þessar strúktúralísku kenningar koma upp í hugann á sýningu Jóhönnu, en list hennar í heild er órofið samspil ótal þátta án upphafs og endis. Það er erfitt að líta á hvert listaverk sem einstakt verk, svo þétt og samtengd er sýningin í heild. Hvert um sig verða listaverkin líkt og tákn innan heildarinnar og athyglin hvarflar í sífellu á þeirra, frekar en að staðnæmast við hvert og eitt fyrir sig. Samtalið og tengingarnar milli listaverkanna verða nær áþreifanleg, og þá helst samspil jákvæðra og neikvæðra forma, ósjálfrátt leitar maður að því hvaða verk myndi passa inn í eða við annað.

Formheimur listar Jóhönnu er að grunninum til abstrakt, málverkin eru blanda geómetrískra og lífrænna forma sem fara frá því að vera þétt, samtengd heild yfir í að fljóta af léttleika á yfirborðinu. Þessi sömu form verða síðan eins og setning á vegg þegar þeim er raðað upp eins og lágmynd í lárétta röð. Skúlptúrarnir eru frekar tvívíðir en þrívíðir, en í þeim birtast óvæntir hlutir; útlínur hesthauss, gervirós, sem koma á óvart. Þannig brotnar upp hin annars tiltölulega lokaða heild. Myndböndin tvö verða líka til þess að skapa tengingu eða inngöngu fyrir áhorfandann, en í þeim birtist tilfinning fyrir tengingu milli manns og hlutar.

Í herbergi inn af sýningunni er að finna litla bók sem ber sama heiti og sýningin, hún er gefin út í Belgíu og skrifuð á ensku. Líkt og myndverk Jóhönnu er textinn ein, samfelld heild sem flæðir fram frá fyrstu síðu til þeirrar síðustu. Hugleiðingar um stað og stund, tengsl milli manneskja, hluta og umhverfis. Þessi texti nær að opna frekar upp myndheim hennar og undirstrika tengingu verkanna við daglegt líf, tilfinningar og umhverfi.

Sýning Jóhönnu er fjölbreytt og hugvitssamlega samansett. Verk hennar vekja forvitni án þess að svara spurningum, þau leiða áhorfandann inn á óþekkt svæði þar sem vegvísarnir eru á framandi tungumáli en sýningin í heild er áfangastaður. Myndverk og textar lifa samhliða lífi án þess að tengjast beint, en textarnir skapa ákveðin hugrenningatengsl sem gæða myndverkin lífi og í heildina er sýningin eftirminnileg og vekur forvitni.

Ragna Sigurðardóttir


Ljósmyndir: Hafnarborg

Hin fallna kona leikur frjáls í Vinabæ

Hin fallna kona leikur frjáls í Vinabæ

Hin fallna kona leikur frjáls í Vinabæ

Óperan La Traviata eignast nýtt líf í sýningunni Free Play, einskonar innsetningu á mörkum myndlistar, óperu og raftónlistar sem sett verður upp í Vinabæ og er aðeins um eina sýningu að ræða. Listrænir stjórnendur verksins eru Borghildur Indriðadóttir, Hrafnhildur Gissurardóttir og Hrafnhildur Árnadóttir sópran, sem jafnframt flytur hlutverk Víólettu á sviðinu. Í stað hljómsveitar skapar Sveinbjörn Thorarenssen, einnig þekktur sem Hermigervill, hljóðheim verksins í samstarfi við sópransöngkonuna. Blaðamaður artzine hitti á Hrafnhildarnar tvær og Sveinbjörn og ræddi verkið.

„Við vildum draga fram rafið, pönkið og nútímann sem felst í óperunni. Í sýningunni eiga sér snertiflöt myndlist, raftónlist og klassísk ópera og reynum við að gera þessum ólíku miðlum jafnhátt undir höfði,” segir Hrafnhildur Gissurardóttir. Úr varð lifandi innsetning, þar sem Hrafnhildur Árnadóttir syngur aríur Víólettu við draumkennda raftónlist. Leikmyndin er plastfyllt svið sem minnir á abstrakt vinnusvæði þar sem öll verkfæri innsetningarinnar eru sýnileg. Búningur Hrafnhildar, hannaður af Þórunni Maríu Jónsdóttur, er hugsaður sem nokkurskonar framhald af innsetningunni. Í upphafi er tilvísun í óperuna greinileg en sú tilvísun strípast af þegar líður á. Hópurinn að baki Free Play segir bingósalinn eiga margt sameiginlegt með fagurfræði David Lynch og Aki Kaurismäki og var salurinn sem verk leikstjóranna hópnum innblástur við gerð Free Play.

La Traviata er ein frægasta ópera Verdi, enda er hún samin af einstakri ástríðu og einlægni. Umfjöllunarefni óperunnar vakti þó mikla hneykslan þegar hún var fyrst flutt. Verkið fjallar um Víólettu, konu sem Hrafnhildur G. lýsir sem einangraðri og þjakaðri konu: „Hún upplifði mikla skömm, en var með hreint hjarta. La Traviata þýðir auðvitað „hin fallna kona“ upp á íslensku, og þegar verkið var frumflutt í Feneyjum á nítjöndu öld þótti verkið allt of syndsamlegt. Tónskáldið vildi að óperan ætti sér stað í samtíma hans, en það þótti höggva allt of nærri almenningi. “Verdi var óhræddur við að brjóta hefðir – hann var algjör pönkari.

Myndskeið og klipping: Saga Sig og Valgerður Árnadóttir

Í hugum flestra er óperan með hefðbundnari formum, en þó eru umdeildar jaðarpersónur oft miðpunktar óperanna. Sem dæmi má til viðbótar við Víólettu nefna persónu Carmen í samnefndu verki Bizet og Elektru í samnefndu verki Strauss. Ef til vill var óperan eini farvegur þess tíma til að raddir kvenna eins og þeirra fengju að heyrast.

Hrafnhildur Árnadóttir hefur ekki áður sungið hlutverk Víólettu, en segir það lengi hafa verið sitt draumahlutverk innan óperunnar. „Það er hvirfilbylur innra með Víólettu. Hún á margt sameiginlegt með nútímakonum að því leyti að hún er með þunga byrði að bera, hún glímir við veikindi og erfiðleika en setur upp grímu og lætur eins og allt sé í lagi. Einnig plagar hana óttinn við að vera ástfangin, kvilli sem líka plagar okkur nútímafólkið, bæði konur og karla. Ástin á að vera það stórkostlegasta sem til er en á sama tíma erum við skíthrædd við hana og reynum því mörg að forðast hana á ýmsan hátt, með djammi, glysi og glaumi.“ Sveinbjörn bætir við að í þessari uppsetningu fái Víóletta sviðið loks óáreitt: „Allt sem gerist á sviðinu er frá hennar sjónarhóli, þar sem hún flýtur á skýi óöryggis og óhamingju.“

Þó er hér ekki um staðfæringu á La Traviata að ræða, enda er sagan í takt við allt sem er að gerast í samfélagi okkar að við hana þarf engu að bæta, að mati hópsins. „Steríótýpan um hina föllnu og afvegaleiddu konu á enn þá við í dag.”segir Hrafnhildur G.

Þessi tragíski karakter kemur vel fram í hljóðheimi Sveinbjörns og Hrafnhildar. Þó að í klassískum uppsetningum á La Traviata sé mikið partý á sviðinu segir Sveinbjörn tónlistina sem hann hefur skapað enga partítónlist, enda sé tónlistin sköpuð út frá innri hugarheimi Víólettu. „í tónlistinni eru falin einkenni óperunnar sem brjótast svo fram á réttum tíma og nóg af skruðningum og óhljóðum í bland við kristalfegurð“, segir Sveinbjörn. Hann segir hafa verið áhugaverða reynslu að vinna í fyrsta sinn með óperusöngkonu: „Ég fékk algjört sjokk fyrst þegar við komum inn í stúdíó saman. Óperur eru auðvitað aldrei teknar upp í litlu rými heldur í óperuhúsum og inní lítilli stúdíókompu var hávaðinn ærandi! Um leið og hún byrjaði að syngja þurfti ég að grípa fyrir eyrun, og hún sprengdi náttúrulega alla skala á hljóðnemunum og allt það. En eftir þetta byrjunarsjokk gátum við farið að leika okkur með óperusönginn, og meðal annars að setja auto-tune á sönginn og allskonar skemmtilegt.“ Í sýningunni gefst áhorfendum því gullið tækifæri til að kynnast því sem Sveinbjörn veðjar á að verði næsta æði í poppheiminum: Óperusöngur með „auto-tune“.

Free Play hefur verið í vinnslu síðastliðið ár, en ferlið byrjaði með samtali þeirra Borghildar og Hrafnhildanna tveggja, en þær hafa allar sterka tengingu við óperuna á einn eða annan hátt. Þær eru nýfluttar frá Þýskalandi og Hollandi, löndum sem hafa lengi haldið merkjum óperunnar á lofti. Hrafnhildur G. segir frá sinni upplifun af óperuheiminum: „Ég starfaði sem sýningarstjóri í Amsterdam og bjó beint á móti óperuhúsinu þar. Ég var svo síðustu mánuði mína þar farin að fara reglulega í óperuna og pæla mikið í henni. Ég fór að fá leið á að sitja yfir myndlistarsýningum. Jafnvel þó ég væri að koma á framfæri ungum listamönnum sem mér fannst ótrúlega spennandi fannst mér eins og vantaði líf í sýningarnar eftir að þær voru opnaðar. Ég varð því spennt fyrir lifandi innsetningum og performansi, að geta sósað öllum formum saman.“

Það gera höfundarnir í hópnum svo sannarlega í Free Play en bakgrunnur þeirra spannar allt frá arkítektúr og sýningarstjórnun yfir í klassískan óperusöng. Þó fannst þremenningunum þær verða að fara út fyrir hið hefðbundna óperuhús til að ná þessum markmiðum sínum: „Ef þú tekur óperuna ekki úr sínu hefðbundna umhverfi verður hún alltaf glamúr. Til að geta yfirleitt séð óperu í Evrópu þarf maður yfirleitt að labba inn í eitthvað í líkingu við kastala, en við vildum berstrípa óperuna af þessum glamúr.“ Vinabær varð í framhaldinu fyrir valinu sem svið fyrir harmsögu Víólettu. „Fyrir utan það hversu heillandi bingósalur Vinabæjar er þá passar nafnið vel við einmanaleika Víólettu, en hún kallaði heimaborg sína París til dæmis „yfirfulla eyðimörk“.

Verkið verður aðeins sýnt í Vinabæ á laugardaginn klukkan 17, en hópurinn stefnir á að finna verkinu fleiri farvegi í framtíðinni. „Við komumst svo nýlega að því að Íslenska Óperan er að fara að setja þetta upp á næsta ári í Hörpu, sem er skemmtileg tilviljun. Svo það verður gaman fyrir óperuunnendur að bera verkin saman“ segir Hrafnhildur G að lokum.

Salvör Gullbrá Þórarindóttir


Staður: Vinabær, Skipholti 33, 105 Reykjavík.
Tími: 17.00. 

Miða á Free Play má nálgast á Tix.is.
Listrænir stjórnendur: Borghildur Indriðadóttir, Hrafnhildur Gissurardóttir og Hrafnhildur Árnadóttir.
Tónlist: Sveinbjörn Thorarensen, Hermigevill.
Búning Víólettu hannaði Þórunn María Jónsdóttir í samstarfi við listræna stjórnendur.
Hönnun eftir Petru Valdimarsdóttur.
Förðun: Ástrós Erla Benidiktsdóttir .
Ljósmyndir og upptökur eftir Sögu Sig. Aðalmynd með grein: skjáskot úr myndbandi eftir Sögu Sig.
Klipping var í höndum Valgerðar Árnadóttur.

Viðburðurinn á Facebook

Um samúð

Um samúð

Um samúð

Í Hallgrímskirkju stendur yfir sýning Kristínar Reynisdóttur myndlistarmanns, til 13. maí. Hún ber titilinn Synjun og í sýningarskrá er fjallað um hvernig verk Kristínar vísa í stöðu flóttamanna og þann fjölda fólks sem hefur verið synjað um hæli hérlendis og erlendis. Í anddyri kirkjunnar má sjá krossa úr ólíkum viðartegundum sem vaxið hafa víðs vegar um heiminn en borist hingað til lands, rennda viðarboli í formi lágmynda og mynd af risastóru, neyðarappelsínugulu hjarta, lit sem einnig er á bakhlið viðarkrossanna.

Frá upphafi er óhætt að segja að list og samfélag tengist órjúfanlegum böndum. Á einn eða annan hátt er listin hluti af umhverfi sínu, hvort sem hún er andsvar við því, speglar það, setur fram heimspekilegar vangaveltur, eða er virkur hluti af því. Öldum saman hefur listin verið farvegur samfélagsins fyrir þjáningu, sorg, gleði og reiði. Listaverk eru eins og tímavélar, þau geta gert nokkrar aldir að engu, hinn sammannlegi þáttur er alltaf eins. Andlit aftan úr öldum lifnar við augliti til auglitis á striganum og mannlegar tilfinningar tjáðar í ljóði breytast ekki.

Undanfarna áratugi hafa listamenn í auknum mæli leitast við að virkja list sína innan ramma samfélagsins. Markmiðið er þá iðulega að reyna á einhvern hátt að nýta myndlistina til að auka lífsgæði, eða til að vekja athygli almennings á því sem betur má fara. Myndlist getur til dæmis aukið lífsgæði þegar listamenn leggja áherslu á mannlega og notendavæna þætti innan borgarskipulags, eða fegra umhverfi sitt. Þessi liststarfsemi gengur undir ýmsum nöfnum, á borð við „urban interventions“, eða „project-based community practise“, og fleira. Stundum rennur listin saman við félagsstarfsemi svo varla verður greint á milli. Síðan eru til listamenn eins og Rirkrit Tiravanija sem sérhæfa sig í að gefa fólki að borða – að vísu kannski ekki þeim sem mest þurfa á því að halda, heldur listunnendum sem mæta á opnun eða sýningu. En þannig má vekja athygli á margvíslegum möguleikum listarinnar.

Aðrir listamenn nálgast samfélagsleg málefni á hefðbundnari máta og í sjónrænu formi, eins og Kristín gerir á sýningu sinni, Synjun. Málefni flóttamanna á Íslandi eru sífellt í umræðunni, flestir koma – og fara – án þess að við vitum af því en einstaka mál ná athygli okkar í gegnum fjölmiðla og eru lýsandi dæmi fyrir þann alþjóðlega veruleika sem Ísland er hluti af. Árlega er fjölda fólks synjað um hæli hérlendis og það sent burt, ómögulegt er að ímynda sér hvernig er að standa í slíkum sporum. Hér kemur hin illræmda Dyflinnarregla við sögu en samkvæmt henni má senda þá sem áður teljast hafa sótt um hæli í öðru ríki innan Evrópusambandsins til baka þangað án þess að mál þeirra fái efnislega meðferð. Flóttamenn geta til dæmis lent í því að fingraför þeirra eru tekin á Ítalíu og sett í alþjóðlegan gagnagrunn og teljast þeir þá falla undir þessa reglu. Dyflinnarreglugerðin veitir löndum heimild en skikkar þau ekki til þess að senda fólk til baka, það er valkostur.

Óhætt að segja að aðstæður flóttamanna frá stríðshrjáðum ríkjum séu í brennidepli í samtímanum og aldrei er of oft minnt á nauðsyn þess að sýna náunganum samúð. Kannski má líka túlka sýningu Kristínar í víðara samhengi, sem kveikju að samúð, ekki bara í garð flóttamanna heldur allra, að ógleymdri nauðsyn þess að sýna sjálfum sér samúð.
Vonandi verður Synjun til þess að minna fjölmarga gesti Hallgrímskirkju á mikilvægi samúðarinnar. Hún gæti líka minnt á möguleika myndlistar og lista almennt séð til þess að vera virkt afl í málefnum samtímans. Aðferðir og möguleikar listamanna eru jafn ólíkir og margvíslegir og þeir eru margir.

Ragna Sigurðardóttir


Ljósmyndir: HGÓ

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest