Án áhorfandans er listaverkið ekki til

Án áhorfandans er listaverkið ekki til

Án áhorfandans er listaverkið ekki til

Nú sýnir Listasafn Íslands þekkta myndbandsinnsetningu, Hafið eftir franska listamanninn Ange Leccia. Verkið hefur verið sett upp á risastórum skjá í öðrum enda sýningarsalarins, eins og kvikmynd á tjaldi. Þetta er vel við hæfi því Ange Leccia hefur frá upphafi ferils síns sótt áhrif til kvikmynda, en listamaðurinn kom sjálfur hingað til lands og tók þátt í uppsetningu sýningarinnar.

Myndbands/kvikmyndaverkið Hafið er upprunalega frá árinu 1991. Ange Leccia hefur sýnt verkið mörgum sinnum og á mismunandi hátt en framsetning þess tekur iðulega mið af aðstæðum. Verkið er tvískipt, annars vegar sýnir það hvítar öldur brotna í síbylju á svartri strönd. Sjónarhornið er líkt og áhorfandinn svífi í lausu lofti beint ofan við flæðarmálið og horfi niður, myndinni er síðan varpað upp á skjá eða tjald, þannig að öldurnar sem skríða inn á sandinn birtast lóðréttar, þær rísa og hníga og minna á fjallstoppa.

Þessi þöglu myndskeið eru síðan brotin upp með stuttum myndskeiðum sem eru annað hvort úr smiðju Leccia eða tekin úr kvikmyndum þekktra leikstjóra eins og t.d. Jean Luc Godard. Þessi myndskeið eru hljóðsett á ýmsan hátt, sumum fylgir suð Super-8 myndavélar, öðrum popptónlist frá unglingsárum listamannsins, eða hljóðmynd viðkomandi kvikmyndar þaðan sem brotið er fengið að láni. Leccia hefur líka sýnt eingöngu myndskeiðið af öldum á strönd sem sjálfstætt verk undir sama nafni. Saman mynda þessir þættir grípandi verk sem seiðir og laðar áhorfandann til sín.

Áhrif Japansferðar

Áhorfandanum er boðið til sætis í hálfrökkvuðum sal. Á tjaldinu brotna hvítar öldurnar í síbylju á svörtum sandinum, rísa og hníga á víxl, í þeim hæga, reglubundna takti sem hafinu er eiginlegur, náttúran andar. Hafið er gert á Korsíku, æskuslóðum listamannsins, eftir dvöl hans í Japan. Myndbandið er tekið upp á ströndinni sem hann heimsótti reglulega með foreldrum sínum í æsku. Í Japan kynntist Leccia Shinto-hefðinni, sem á rætur sínar að rekja allt aftur til 8. aldar, og hann hefur sagt að Hafið hefði ekki orðið til án Japansferðarinnar. Í Japan er Shinto ekki beinlínis trúarbrögð heldur hefð sem á sér sterkar rætur. Hún birtist í ótal hofum víðs vegar um landið sem Japanar heimsækja oft, þangað sækja þeir sálarró og hjálp á erfiðum stundum. Í Shinto-hofunum upplifir fólk sterka tengingu við náttúruna, frið og öryggi. Hofið upphefur náttúruna sem heilaga, og Shinto-hof þurfa ekki endilega að vera byggingar, þau geta líka verið foss, klettur, tré eða fjall. Þessi tilfinning gagnvart heilagleika náttúrunnar hafði sterk áhrif á Leccia. Í verkinu nálgast hann ströndina og náttúruna á vissan hátt sem heilagan stað og fyrir vikið verður listaverkið sjálft líkt og staður sem áhorfandinn gengur inn í og tengist.

Milli myndbandslistar og kvikmyndalistar

Í Hafinu birtast skýrt tengsl listamannsins við kvikmyndir. Að loknu listnámi með áherslu á málverk og ljósmyndun lagði Leccia stund á nám í kvikmyndafræði í París á áttunda áratug síðustu aldar, kvikmyndamiðillinn heillaði hann meira en málverkið. Á löngum ferli sínum hefur Ange Leccia gert ótal myndbandsverk sem einnig mætti kalla stuttmyndir, og hefur nefnt kvikmyndagerðarmenn á borð við Jean-Luc Godard, Paolo Pasolini og Michelangelo Antonioni sem áhrifavalda við upphaf ferils síns. Upp úr miðri 20. öld átti sér stað bylting í franskri kvikmyndagerð, kölluð Nýbylgjan. Stefna Nýbylgjunnar var sú að kvikmyndin yrði listrænn tjáningarmiðill á borð við málverkið og skáldsöguna, miðill þar sem listamaður tjáir tilfinningar sínar. Tækni Nýbylgjunnar fólst meðal annars í uppbroti frásagnarinnar, brotakenndum klippingum og löngum tökum, en þessir þættir eru einnig sýnilegir í Hafinu. Hér eins og í fleiri verkum er áherslan mjög sterk á sjónræna þætti, liti, birtu, stemningu frekar en línulaga frásögn, en þó segja sum verkanna sögur.

Myndbrotin sem brjóta upp síbylju öldurótsins eru nokkuð ólík innbyrðis. Þau eru bæði sköpun Ange Leccio og „fundin myndbrot“ úr kvikmyndum. Í mörgum þeirra leikur sólin stórt hlutverk, það má líka segja að verkið í heild sýni ekki hvað síst samspil hafs og sólar. Sólin varpar ýmist sterkum lit, glampa eða er blindandi. Nokkur innskotanna sýna andlit ungra kvenna eða stúlkna, þær tjá sig ekki heldur eru þöglar, áhorfandinn varpar sínum eigin hugsunum yfir á þær. Sum andlitin vísa skýrt til ákveðinna málverka. Til dæmis minnir andlit konu með lokuð augu undir vatnsyfirborði á málverk John Everett Millais af Opheliu, en Leccia hefur gert fleiri en eitt myndbandsverk af kvenandliti undir vatni. Myndskeiðið af öldurótinu tengist líka sögu málverksins, hér birtast öldurnar eins og fjöll sem rísa og hníga og minna á málverk frá rómantíska tímanum. Sú sterka mynd sem skapast þegar áhorfandinn horfir á Hafið tengist líka hugmynd rómantíkurinnar um sambandi manns og náttúru. En Leccia segir einmitt  að listaverk verði til við áhorf; án áhorfandans er listaverkið ekki til.

Eilífðin er fundin

Ange Leccia notar oft kvikmyndabrot frá öðrum, í anda svokallaðrar „appropriation“-stefnu, þar sem listamenn ganga í smiðju annarra og endurnýta eitthvað af verkum þeirra, setja þau fram á nýjan hátt og í nýju samhengi. Hér notar hann m.a. brot úr kvikmynd Jean Luc Godard, Pierrot le Fou, frá árinu 1965, Leccia sýnir lokasprengingu myndarinnar endurtekna með hvelli í sífellu. Einnig notar Leccia brot úr hljóðsetningu sömu myndar, þar sem leikarar hvísla upphafserindi ljóðsins Eilífðarinnar eftir Arthur Rimbaud: „Elle est retrouvée. Quoi? – L´Eternité./C´est la mer allée.“ , en í ljóðinu segir Rimbaud eilífðina birtast þar sem sólin merlar á hafinu.

Ange Leccia hefur talað sérstaklega um þátt löðursins í Hafinu. Hvítfyssandi öldurnar birta mörk lands og sjávar, og þau eru síbreytileg, eins og landamæri sem færast til í sífellu. Í þessum síbreytilegu skilum milli lands og sjávar birtist starf listamannsins, segir Leccia, hann sækir fram og hörfar í list sinni. Hann lítur ennfremur á hvítt löðrið eins og auða blaðsíðu, hvítan skjá, móttækilegan fyrir hugsunum áhorfandans. Þannig má líta á Hafið sem eins konar rými, móttækilegt fyrir ahorfandann, stað til að láta hugann hvarfla og láta sig dreyma, um leið og verkið kemur á óvart með óvæntum myndum og hljóðmynd.

Ange Leccia er fæddur á Korsíku árið 1952. Hann býr og starfar í París og á Korsíku. List hans hefur verið sýnd á söfnum víða um heim,  til dæmis í Guggenheim-safninu í New York, í Pompidou-safninu í París, í Musée d´art moderne de la Ville de Paris og á stórum alþjóðlegum sýningum á borð við Dokumenta í Kassel og Tvíæringnum í Feneyjum. Síðan 2001 hefur Ange Leccia verið forstöðumaður rannsóknarmiðstöðvarinnar Pavillon Neuflize OBC í Palais de Tokyo, París.

Sýningin í Listasafni Íslands stendur til 4. febrúar 2018.

Ragna Sigurðardóttir


Greinin er gerð í samstarfi við Listasafn Íslands.
Ljósmyndir: Helga Óskarsdóttir.

Díana að eilífu: Prinsessa, goðsögn, fórnarlamb

Díana að eilífu: Prinsessa, goðsögn, fórnarlamb

Díana að eilífu: Prinsessa, goðsögn, fórnarlamb

Nýverið opnaði sýning í tilefni þess að tuttugu ár eru liðin frá dauða Díönu prinsessu af Wales og er titill sýningarinnar, Díana, að eilífu eða Diana, Forever. Sýningin er haldin annarsvegar í Gallerí Port að Laugavegi 23b og hinsvegar í Ekkisens sem er staðsett að Bergstaðastræti 25b. Blaðamaður artzine hitti sýningarstjórana og listamennina Auði Lóu Guðnadóttur og Starkað Sigurðarson og spurði þau um um sýninguna.

Starkaður Sigurðarson, Andrea Arnarsdóttir og Auður Lóa Guðnadóttir

Fjórtán listamenn á öllum aldri taka þátt í sýningunni og varpa, með fjölbreyttum listaverkum, ljósi á samband sitt við viðfangsefnið. Hugmyndin kviknaði þegar Auður Lóa var að leita að myndefni af rómversku gyðjunni, Díönu, að baða sig. „Sagan segir að veiðimaður hafi komið að Díönu berskjaldaðri að baða sig og að hún hafi breytt honum í hjört svo veiðihundar hans snerust gegn honum og drápu hann. Þegar ég var að leita að tilvísunum í eldra myndefni af þessu á Google fann ég fullt af flottum olíumálverkum, en sirka fimmta hver mynd var ljósmynd af Díönu prinsessu að sóla sig á snekkju, í túrkíslituðum 90’s sundbol“.

Við frekari leit fann Auður dýpri tengingu á milli gyðjunnar Díönu og prinsessunnar Díönu. Því ákvað hún að samtvinna goðsögnina við líf Díönu prinsessu, sem virðist að mörgu leiti hafa verið „nútímalegur harmleikur“, sviðsettur af fjölmiðlum.

Auður Lóa Guðnadóttir, Gallerí Port.

Auður Lóa Guðnadóttir, Gallerí Port.

Una Sigtryggsdóttir og Svein Steinar Benediktsson, Gallerí Port.

Andrea Arnarsdóttir, Ekkisens.

Starkaður Sigurðarson, Ekkisens.

Starkaður bætir við að það sem almenningur veit um Díönu prinsessu kemur að mestu leiti úr myndefni frá slúðurblöðum og fjölmiðlum. „Við erum strax komin með fyrsta lagið sem aðskilur okkur frá henni. Verkin fjalla um hugmyndir okkar um Díönu frekar er manneskjuna sjálfa: mynd af myndgerðri ímynd af óraunverulegri manneskju. Díana verður þannig nostalgísk, jafnvel goðsagnarkennd persóna. Hún á sér margar hliðar og þess vegna er hún áhugavert viðfangsefni í myndlist.“

Verkin sýna ýmsar ólíkar birtingarmyndir Díönu prinsessu. „Sýningin er svolítið ‘Díana og ég’. Nálgun hvers og eins listamans verður mjög persónuleg,“ segir Auður. „Alls voru þrjú verk til áður en ferlið hófst en öll hin verkin voru sérstaklega gerð fyrir sýninguna.“

Gjörningakvöld var haldið í Mengi í tengslum við sýninguna þar sem tveir gjörningar voru fluttir. Annar þeirra, Royality vs. Reality, fluttur af Rúnari Erni Marínóssyni og Berglindi Ernu Tryggvadóttur, tók á sig form listræns fyrirlesturs á meðan seinni gjörningurinn, Díana undir rós, saminn af Guðrúnu Heiði Ísaksdóttur og Maríu Worms, var eilítið leikrænni.

Frá gjörningakvöldi í Mengi

Rúnar Örn Marínósson og Berglind Erna Tryggvadóttir voru með listrænan fyrirlestur.

Berglind Erna Tryggvadóttir

Rúnar Örn Marínósson og Berglind Erna Tryggvadóttir.

Seinni gjörningurinn, fluttur af Maríu Worms, Auði Lóu og Starkaði Sigurðarsyni, var eilítið leikrænni.

Auður Lóa.

Auður Lóa og María Worms.

Auður Lóa og María Worms.

Verkin á sýningunni eru fjölbreytt og einkennast helst af málverkum, teikningum og skúlptúrum, auk hreyfi- og ljósverka. Hvert verk virðist spegla líf Díönu á sinn hátt. Verkin fjalla meðal annars um útlit hennar; ástina, kynið og goðsögnina; hlutgervinguna, ímyndina og fórnarlambið.

„Það er dálítil tvíræðni í öllum verkunum. Tvíræðnin er líka það sem gerir Díönu áhugaverða.“ segir Starkaður. „Það veit náttúrlega enginn okkar hvernig Díana var í raun og veru,“ bætir Auður við. „Því væri hægt að segja að allar framsetningarnar séu í raun ósannar. En svo er sannleikurinn náttúrlega bara það sem við trúum að sé satt. Ef ég tryði því að Díana væri lauslát væri það sannleikur fyrir mér, eins ef hún væri dýrlingur. Díana var ein þeirra fyrstu sem var elt uppi af fjölmiðlum og slúðurblöðum. Hún náði reyndar að nota það sem tól seinna meir og olli þannig miklum viðhorfsbreytingum í bresku samfélagi og heiminum öllum. Ég held að Díana hafi undir lokin verið manneskja sem vildi bara vera elskuð. Hún fékk ekki ástina eða lífið sem hún þráði þegar hún giftist Karli bretaprins, nítján ára, en ástina fékk hún frá almúganum sem virtist dýrka hana þá og virðist enn gera það í dag.“

Þáttakendur í verkefninu eru: Andrea Arnarsdóttir, Auður Lóa Guðnadóttir, Berglind Erna Tryggvadóttir, Guðrún Heiður Ísaksdóttir, Helga Skúladóttir Thoroddsen, Magnús Gestsson, María Worms, Rúnar Örn Marinósson, Sigrún Hlín Sigurðardóttir, Snorri Ásmundsson, Starkaður Sigurðarson, Steingrímur Eyfjörð, Sveinn Steinar Benediktsson, Una Sigtryggsdóttir.

Lokahóf sýningarinnar verður 25. Nóvember í Ekkisens. Við hvetjum fólk eindregið til að nýta tækifærið og skella sér á hina margbrotnu og litríku sýningu, Díana að eilífu.

Sólveig Eir Stewart


Ljósmyndir af verkum: Starkaður Sigurðarson (Ekkisens) Helga Óskarsdóttir (Gallerí Port)
Frá gjörningakvöldi í Mengi: Laufey Elíasdóttir

Jafnvægi-Úr Jafnvægi, Rúrí í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi

Jafnvægi-Úr Jafnvægi, Rúrí í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi

Jafnvægi-Úr Jafnvægi, Rúrí í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi

Jafnvægi–Úr Jafnvægi nefnist sýning sem nú er uppi í sal Ketilhússins í Listasafninu á Akureyri. Salurinn er þekktur er fyrir mikla lofthæð auk sýningarrýmis á svölum. Þannig er hægt að sjá sýninguna frá tveimur sjónarhornum; frá gólfinu í salnum og ofan af svölunum. Sýningin stendur yfir frá 9. september – 12. nóvember 2017.

Innsetningin byggir á þremur, ómáluðum stöplum, gerðum úr spónaplötum og fimm hillum á vegg úr sama efni. Stöplarnir eru allir 90 cm háir og 45 cm breiðir en lengd þeirra er mismunandi. Sá minnsti er um hálfur metri að lengd, staðsettur upp við vegg, gegnt hillunum. Í rýminu sjálfu eru tveir langir stöplar, annar 4m og hinn um 11m, staðsettir að hluta til samsíða og skáhalt í salnum. Þessi uppsetningin gefur sýningunni bæði kraft og sérstöðu.

Á stöplana og hillurnar raðar Rúrí margskonar hlutum frá mismunandi tímum, m.a. vigtum, fræðibókum, landakortabókum, misstórum hnattlíkönum, skeið- og vekjaraklukkum, vatnsflöskum, tímaglasi, krukku með peningum o. fl. Í uppröðun hlutanna er vel hugað að efni, formi, litum og innihaldi sem vinna saman og mynda kraftmikla og áhugaverða heild þar sem fágun og jafnvægi ræður ríkjum. Á vigtirnar setur hún mismunandi hluti og oft hvíla þær sjálfar á bókastöflum. Hún staðsetur hlutina í línum á löngu stöplunum, hvern á sinn hátt; sumir halla til vinstri aðrir til hægri og fjarlægðin á milli er vandlega úthugsuð. Staðsetning hlutanna gefur sýningunni takt sem eflist enn frekar við tikkið og sláttinn í gamalli klukku sem ómar um allt húsið. Segja mætti að lykilverk sýningarinnar sé stór vatnsflaska sem staðsett er á fornri trévigt með mælikvörðum úr járni. Óneitanlega vekur þetta verk upp spurningar um þyngd og verðgildi vatnsins, nauðsynlegustu auðlind jarðarinnar. Enginn lífvera lifir án vatns.

Táknmál – tungumál

Tími, mælieiningar, rýmið og alheimurinn og hvernig mannkynið umgengst jörðina er aðalinntak sýningarinnar. Hvernig við sem búum á jörðinni höldum okkur og henni í jafnvægi og reynum að draga úr ójafnvægi. Klukkan tifar, það er tími til að vakna og hefjast handa áður en það verður of seint. Tíminn er ekki ótakmarkaður og ekki er hægt að fara hálfsofandi í gegnum lífið aðgerðarlaus og ómeðvitaður um eigin hlutdeild. Við berum ábyrgð á eigin lífi og umhverfi okkar, í samfélagi við aðra.

Sýningin fjallar um margskonar jafnvægi og andstæðu þess; ójafnvægi, hjá einstaklingunum, samfélaginu og jörðinni sem plánetu. Uppistaða lífs á jörðinni er loft og vatn, annað söluvara hitt óseljanlegt. Auðhringir og efnafólk keppast um að komast yfir vatnsból og verðmæt landsvæði auðug af vatnsuppsprettum. Ójafnvægið veldur stríði og baráttu um auðlindir jarðar.

Hnattræn hlýnun ruglar m.a. vatnskerfinu sem veldur hækkun á yfirborði sjávar og ruglar og breytir vistkerfinu. Í tungumálinu er talað um að leggja á vogarskálarnar, sem þýðir að vega og meta hluti og aðstæður. Það leiðir hugann að því hvernig vistkerfið og hagkerfin þurfa að vera í jafnvægi en ekki ójafnvægi.

Sýningin er byggð upp af kunnuglegum hlutum settum fram sem táknum sem áhorfandinn getur ráðið í og sett í orð, setningar og skiljanlegt tungumál í eigin vitund og aukið skilning á því sem hann sér og skynjar. Í texta sem fylgir sýningunni er innihaldi sýningarinnar lýst: „Þessi sýning leggur listina á vogarskálar. Vogarskálar vega sögu mannkyns og jarðar, vega tíma, vega vægi mismunandi gilda, til dæmis hagkerfi á móti vistkerfi, eða vægi huglægra gilda“.

Vatnsflöskur og landakort framtíðar

Rúrí hefur um langt skeið verið áhrifamikil í íslenskri myndlist. Hún er fjölhæfur myndlistarmaður, oft með pólitíska nálgun og jafnvíg á skúlptúra, gjörninga og innsetningar. List hennar er löngu orðin þekkt út fyrir landsteinana. Meðal verka hennar er einn þekktasti skúlptúr landsins, Regnboginn, sem milljónir manna hafa barið augum, en færri vita e.t.v. hver höfundurinn er. Verkið stendur við flugstöð Leifs Eiríkssonar og er frá árinu 1991.

Síðustu mánuðina hafa Eyfirðingar og gestir þeirra átt kost á því að sjá list Rúrí bæði í Verksmiðjunni á Hjalteyri og í Listasafninu á Akureyri og einnig gjörning hennar á gjörningahátíðinni A! sem haldin var í byrjun september s.l.

Gjörningurinn stóð yfir í 80 mínútur og hafði Rúrí tvo svartklædda menn sér til aðstoðar. Sjálf var hún einnig í svörtu og umgjörðin var rannsóknarstofa. Taktfast reif hún blaðsíður úr heilli Atlasbók og enduðu þær, með aðstoð hjálparmannanna, í tætara og því næst ofaní tilraunaglasi með tappa, upp í hillu rannsóknarstofunnar. Ferlið var síendurtekið, fágað og skýrt og gjörningurinn í heild afar eftirminnilegur. Tilfinning fyrir tíma og rými virtust hverfa.

Í sumar tók Rúrí þátt í sýningunni Hverfing/Shapeshifting, í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Hún sýndi annars vegar nokkur landakort sem vísa til framtíðar, og hins vegar langa röð af tómum, misstórum vatnsflöskum sem liðuðust eins og lækur eftir gólfinu í risastórum sal Verksmiðjunnar. Rúrí er sérlega lagin við að búa til líf og kraft með staðsetningu hluta og rýminu sem myndast á milli þeirra. Flöskurnar fengu þannig líf og tilgang sem getur verið flókið að fanga, í þessu hráa og mis-vel upplýsta rými. Þarna voru mörg góð verk en þessi vatnskrukkuröð talaði skýrast til mín auk kortanna sem lýstu framtíðarsýn á landið ef fer sem horfir varðandi hækkun yfirborðs sjávar. Sá raunveruleiki gleður engan.

Krefjandi spurningar

Þær spurningar sem verk Rúrí vekja eru ekki léttvægar. Hún teflir fram staðreyndum sem myndmál listarinnar gefur áhorfandanum færi á að upplifa á annan hátt en það sem fræðimenn tjá með tölugröfum, línu-og fræðiritum, stundum í frekar eintóna framsetningu. Hlutverk vísindamanna og listamanna eru því ólíkt þó stundum takist þeir á við svipuð eða sömu viðfangsefni og varpi fram samskonar spurningum sem okkar er svo að svara.

Á sýningunni Jafnvægi–Úr Jafnvægi, dregur Rúrí upp mynd af raunveruleikanum, með tilheyrandi spurningum. Hún predikar ekki en gefur okkur andrými til að bæta við verkið í huganum svörum við spurningunum og þannig jafnvel klára verkið. Sama gildir um Regnbogann, við Leifsstöð þar sem hún gefur okkur sýn á hluta regnbogans, okkar eigin hugsun og túlkun klárar svo verkið. Hver og einn sér þá Regnbogann á sinn einstaka hátt. Sýning Rúríar talar skýrt máli fagurfræðinnar og hvetur til ígrundunar og ábyrgðar á eigin lífi og því hvernig hægt er að vinna gegn ójafnvægi, í víðum skilningi.

Guðrún Pálína Guðmundsdóttir


Ljósmyndir: Listasafnið á Akureyri Vefsíða Rúríar: ruri.is Vefsíða safnsins: www.listak.is

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest